Anna ævintýri

Ég er frjáls eins og fuglinn..

Ramadhan!

19. ágúst 2011 | aevintyri

16/8
Tíminn líður svo fljótt að ég hef ekki tekið eftir því að ég er búin að eyða meira er 12 mánuðum í Afríku, 1 ár! Það er skrítin tilfinning þegar ég hugsa um allan þennan tíma.
Í eitt ár hef ég þvegið fötin mín í höndunum, sofið undir moskítóneti, barist við moskító, borðað hrísgrjón/ugali(xima) á hverjum degi, staðið á klósettinu, tekið sturtu úr fötu með froskum og kakkalökkum, notið afríkusólarinnar, lært nýtt tungumál, kynnst hinu ótrúlegasta fólki, ferðast með daladala(chapa) (yfirleitt með andlitið í handakrikanum á næsta manni), vörubíl og deilt pallbíl með hermanni yfir þvera Mozambík. Ég hef dansað uppá þaki þangað til sólin kom upp, lent í uppþoti(mótmælum), séð hörmungar, upplifað hamingju, farið í brúðkaup, afmæli og jarðaför. Deilt rúmi með fimm, sofið á ströndinni og uppá þaki, synt í Indlandshafi og Lake Nyasa, verið ólögleg og lögleg, verið neitað um aðgang að Swazilandi, borðað banana í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Séð ljón, fátækt og ríkidæmi, verið skilin og misskilin. Eignast frábæra vini frá meira en 20 löndum og lært meira en ég hafði getað ýmindað mér.
Er það jákvætt að mannskepnan geti aðlagast nokkuð fljótt?
Ég og Philip vorum að velta fyrir okkur lífinu hérna og það var smá sjokk að komast aðþví hversu eðlilegt það er fyrir okkur að hitta einhvern sem ólst upp hjá frænda sínum því foreldrar hans voru of fátækir til að sjá um hann eða foreldrar hans dóu úr HIV/AIDS. Að mæta krökkum sem sitja í sandhrúgu í skítugum fötum og leika sér með ónýtan flippflopp og ýminda sér að hann sé bíll, að 15 ára stelpa sé að selja appelsínur í staðin fyrir að fara í skóla, að hitta enskukennara sem getur ekki kynnt sig á ensku.
Á morgnana þegar ég hef orku að vakna klukkan 6 til að fara út að hlaupa mæti ég yfirleitt mikið af fólki frá næsta „village“. Karlmenn á hjólum sem eru svo yfirfull af kókoshnetum eða eggjum að þeir eiga erfitt með að hjóla, konum/börnum með vatnsfötu á höfðinu og börnum með skólatöskur á leiðinni í skólann. Mér líður yfirleitt hálf heimskulega þegar ég mæti þeim á þessu morgunskokki mínu, ég að hlaupa bara því ég að ég ákvað að hlaupa í staðin fyrir að sofa klukkutíma lengur. En þau eru þarna því dagurinn byrjar um 5 leitið hjá þeim og ef þú ferð ekki og sækir vatnið þá er ekkert vatn, ef þú ferð ekki og selur eggin þín þá átt þú engan pening og færð ekkert að borða og ef þú leggur ekki nógu snemma af stað í skólann og mætir seint þá verður þér refsað.
Ég er búin að eignast góða vinkonu frá munaðarleysingjarhælinu, við erum jafngamlar og í sept þá er hún að fara í háskóla „If god wish“eins og hún orðar það. Hún ætlar að verða læknir, „If god wish“. Og ég? Hmm.. ég hef svo mikið af tækifærum og mörgu úr að velja að ég get ekki einu sinni valið hvað ég vil gera og einu framtíðarplönin sem ég hef núna er að gera mitt besta með þessa blessuðu rannsókn og njóta þess að vera í Afríku þangað til ég þarf að fara heim í nóvember.
Þið sem lesið þetta hafið eflaust mjög lélega mynd af Tanzaníu núna. Það var ekki ætlunin, ég elska Tanzaniu og núna veit ég að ég gæti ekki hugsað mér betri stað til að vera á en akkurat hér í Afríku. Sama hvar ég fer finn ég gleði, bros og tónlist.
18/8
Núna í ágúst er Ramadhan. Semsagt allir múslimar fasta og þar sem margir af vinum mínum eru múslimar ákváðum ég og Rebeca (Mexíkó)að fasta í tvo daga. Í dag er seinni dagurinn og ég verð að segja að ég bjóst við að ég myndi líða vítiskvalir og lægji einhversstaðar grenjandi seinnipart dags, en viti menn ég er hin hressasta og er meira að segja að spá í að fara út að hlaupa um 5 leitið.. ætla samt að sjá til þar sem ég hef ekki drukkið neitt síðan í gær svo það er kannski ekki besta hugmynd í heimi að hlaupa í steikjandi hita án þess að geta drukkið. En þegar maður fastar þá máttu hvorki borða né drekka frá sólarupprás til sólseturs. Svo klukkan hálf 7 í kvöld má ég borða og drekka, svo um 2 leitið í nótt er vaknað borðað einu sinni enn og drukkið og svo ekkert meira þangað til hálf 7 kvöldið eftir. Þetta er alls ekki lífstíll sem ég myndi velja mér fyrir 30 daga en það var gaman að prufa og vita að ég geti gert þetta án mikilla þjáninga!

-superwoman

Posted in Óflokkað

6 ummæli

 1. Íris

  Trúi því ekki að þú sért búin að vera 12 mánuði í Afríkunni þinni! Finnst svo stutt síðan ævintýrið í Grænlandi var að byrja haha :)

  Knús á þig duglega mín*

 2. Össi

  Takk fyrir að deila þessum fræðandi hugleiðingum og lýsingum þínum með okkur ‘hinum’.

 3. Elsa Sigríður

  Anna mín það er alveg ljóst að þú ert komin með efni í bók, þú skrifar svo dásamlega að ég sé allt ljóslifandi fyrir mér og hreinlega tárfelli (en þú veist að það þarf ekki mikið til að ég felli tár). Þú ert frábær penni. Þetta sem þú ert að upplifa er svo sterkt og þarf að deilast með okkur hinum. Takk elsku stelpan mín. Þú ert einstök.

 4. Kristrún

  Hæ Anna.
  Alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt, flottur penni stelpa!!! Vona að þú sért að safna að þér heimildum sem nýtast þér í BA ritgerð seinna mier og vona að þú gerir þér grein fyrir að þú ert með gull í höndum þér fyrir þess háttar verkefni
  kveðja,
  Kristrún

 5. Geir Konráð

  Ég alveg elska að lesa skrifin þín. Vekja mig alltaf ögn frá firringunni sem er manns “venjulega” líf hérna heima, og í bland við þakklæti þá er einnig ógurleg þrá til að fara aftur á flakk og láta gott af sér leiða.

  Farðu ógurlega vel með þig og njóttu lífsins.

  Bros og bestu kveðjur frá Íslandi.

 6. Unnur

  Sæl Anna,

  Ég þekki þig ekki neitt en ég er að fara til Tanzaníu í janúar í sjálfboðastarf og var að spá hvort að ég mætti fá að spyrja þig nokkra spurninga ef það er í lagi. Viltu nokkuð vera svo góð að senda mér emailið þitt? unnurjonasd@hotmail.com :)

  Kv. Unnur